Lög Félags starfsfólks Alþingis
Heiti
1. gr.
Félagið heitir Félag starfsfólks Alþingis. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
Hlutverk
2. gr.
Félagið er stéttarfélag. Hlutverk þess er að standa vörð um og bæta kjör félagsmanna sinna. Það skal annast kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna við forseta Alþingis. Við gerð kjarasamninga skal ætíð taka mið af kjörum sambærilegra hópa í þjóðfélaginu.
Félagið skal fylgjast með því að samningar séu haldnir, réttindi félagsmanna í heiðri höfð og standa vörð um áunnin réttindi einstakra hópa félagsmanna. Þá skal félagið leitast við að leysa ágreiningsmál er varða kjör félagsmanna.
Aðild
3. gr.
Rétt til aðildar að félaginu á allt starfsfólk Alþingis. Fyrsta greiðsla félagsgjalds jafngildir aðild að félaginu.
Stjórn
4. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð formanni og fjórum meðstjórnendum og tveimur til vara sem kosnir eru úr hópi félagsmanna á aðalfundi. Kosið er til stjórnar ár hvert. Kjörtímabil stjórnarmeðlima eru tvö ár. Formaður, tveir meðstjórnendur og einn varamaður eru kjörnir annað hvert ár og tveir meðstjórnendur og einn varamaður hitt árið.
Formaður skal kosinn sérstaklega en meðstjórnendur í einu lagi og sama gildir um varamann. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Um kosningu gildir ákvæði 5. mgr. 6. gr. Ef tilnefndir eru jafnmargir og kjósa skal teljast þeir rétt kjörnir án atkvæðagreiðslu.
Tveir félagskjörnir skoðunarmenn skulu rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár. Þeir eru kosnir á aðalfundi og einn til vara.
5. gr.
Stjórn félagsins skal vinna að því að koma fram ákvörðunum félagsfunda og semja um kjör félagsfólks, nema annað sé ákveðið á félagsfundi. Formaður boðar stjórnarfundi. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir og ræður afl atkvæða úrslitum mála. Halda skal gerðabók um alla stjórnarfundi. Fundargerðir skulu undirritaðar og birtar á vefsíðu félagsins eigi síðar en fjórtán dögum eftir fundi. Fundargerðir um málefni einstaklinga skulu færðar í sérstaka trúnaðarbók. Trúnaðarbók er eingöngu opin stjórn FSA og trúnaðarmönnum félagsins.
Fundir og framkvæmd þeirra
6. gr.
Aðalfund skal halda í febrúar ár hvert. Aðalfundur telst lögmætur hafi verið til hans boðað með dagskrá með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Boða skal til fundarins með dagskrá og skal fundarboð sent á félagsfólk og birt á vef FSA.
Dagskrá aðalfundarins skal vera sem hér segir:
1. Fundarsetning, kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram.
4. Skýrslur nefnda.
a. Skýrsla Orlofssjóðs. Endurskoðaðaðir reikningar lagðir fram.
b. Skýrsla Starfsmenntunarsjóðs. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
c. Skýrsla Fjölskyldu- og styrktarsjóðs. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
d. Skýrslur annarra nefnda.
5. Lagabreytingar.
6. Ákvörðun félagsgjalds.
7. Kosning formanns.
8. Kosning meðstjórnenda og varamanna.
9. Kosning skoðunarmanna og varamanns.
10. Kosning í nefndir.
11. Önnur mál.
Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar stjórn a.m.k. sjö dögum fyrir aðalfund og skal stjórn félagsins sjá um að þær séu birtar á vef FSA og sendar félagsfólki í tölvupósti, þannig að þeir geti kynnt sér þær a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund.
Í upphafi aðalfundar skal liggja fyrir tillaga stjórnar um embættismenn fundarins. Komi fram fleiri tillögur skal einfaldur meirihluti ráða. Formaður, eða sá sem setur fund, stjórnar kosningu fundarstjóra sem stýrir kosningu annarra embætta á fundinum. Sama regla gildir á almennum félagsfundum.
Atkvæðagreiðslur á aðalfundi fara fram með handauppréttingu nema óskað sé sérstaklega eftir leynilegri (skriflegri) atkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða fundarmanna ræður úrslitum nema annað sé ákveðið. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum. Til að lagabreyting nái fram að ganga þarf hún að vera samþykkt með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða.
Ef ekki næst að afgreiða öll fyrirliggjandi mál á aðalfundi er heimilt að fresta fundi og boða til framhaldsaðalfundar sem haldinn skal innan tveggja vikna frá því að aðalfundi er frestað, nema sérstakar ástæður mæli með lengri fresti.
7. gr.
Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins sér ástæðu til og skulu þeir boðaðir með sama hætti og aðalfundur. Skylt er að boða til félagsfundar ef 20 félagsmenn krefjast þess, enda tilgreini þeir fundarefni. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á almennum félagsfundum.
Dagskrá fundarins skal senda félagsmönnum í tölvupósti og birta á vef FSA.
8. gr.
Formaður stjórnar fundum félagsins. Formanni er heimilt að skipa sérstakan fundarstjóra. Fundarstjóri skal skera úr ágreiningi um fundarsköp. Halda skal gerðabók um alla félagsfundi og skal fundargerð borin upp til samþykktar í upphafi næsta fundar stjórnar, undirrituð af stjórnarmönnum o gþví næst birt á vef FSA. Athugasemdir við fundargerð skulu berast fundarritara innan fimm daga frá birtingu hennar.
9. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
10. gr.
Á aðalfundi skal kjósa þrjá fulltrúa í stjórn Orlofssjóðs til tveggja ára og einn til vara til eins árs. Fulltrúar félagsins í stjórn Orlofssjóðs vinna að og gæta hagsmuna félagsmanna í orlofsmálum. Þeir skulu skila skýrslu um málefni sjóðsins á aðalfundi félagsins.
Á aðalfundi skal kjósa til tveggja ára einn fulltrúa í stjórn Starfsmenntunarsjóðs starfsfólks stofnana Alþingis og annan til vara. Fulltrúi félagsins í Starfmenntunarsjóði skal vinna að og gæta hagsmuna félagsmanna í endurmenntunarmálum. Skal hann skila skýrslu um málefni sjóðsins á aðalfundi félagsins.
Á aðalfundi skal kjósa þrjá fulltrúa í kjaranefnd til tveggja ára. Kjaranefnd vinnur úr upplýsingum er varða kjör félagsmanna og framkvæmd kjarasamninga fyrir stjórn félagsins og skal úrvinnsla upplýsinga miða að því að gera stjórn kleift að fylgjast með framgangi kjarasamninga og launaþróun félagsmanna. Kjaranefnd setur sér sjálf starfsreglur sem hljóta gildi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt þær. Formaður félagsins gefur skýrslu um störf kjaranefndar á aðalfundi félagsins.
Heimilt er á félagsfundum jafnt sem aðalfundi að kjósa nefndir til að fjalla um ákveðin málefni í samráði við félagsstjórn. Jafnframt er stjórninni heimilt að kveðja félagsmenn sér til aðstoðar í einstökum málum.
Félagsgjöld
11. gr.
Félagsgjöld er því aðeins heimilt að leggja á að það hafi verið samþykkt á aðalfundi.
Fjölskyldu- og styrktarsjóður
12. gr.
Á aðalfundi skal kjósa þrjá fulltrúa í stjórn fjölskyldu- og styrktarsjóðs og tvo til vara til tveggja ára og skal a.m.k. einn aðalmanna og annar varamanna vera löglærður. Þá skal kjósa löggiltan endurskoðanda til að endurskoða ársreikning sjóðsins. Auk hans skulu félagskjörnir skoðunarmenn rannsaka reikningana.
Stjórn fjölskyldu- og styrktarsjóðs annast framkvæmd 14. kafla kjarasamnings FSA. Stjórn sjóðsins skal setja sjóðnum starfsreglur og semja úthlutunarreglur sem bornar skulu undir stjórn félagsins til samþykktar og kynntar á almennum félagsfundi.
Stjórn fjölskyldu- og styrktarsjóðs starfar sjálfstætt og eru ákvarðanir hennar endanlegar. Ef stjórnarmaður forfallast eða telst vanhæfur til að taka þátt í meðferð máls skal varamaður taka sæti hans. Ef varamenn teljast einnig vanhæfir skal stjórn Félags starfsfólks Alþingis tilnefna mann til setu í stjórninni í hvert skipti. Stjórnin skal skila skýrslu um málefni sjóðsins á aðalfundi félagsins.
Félagsslit
13. gr.
Félaginu verður ekki slitið nema með 3/4 hlutum greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu.
