Starfsreglur

Starfsreglur starfsmenntunarsjóðs starfsmanna stofnana Alþingis

  1. Réttur sjóðfélaga
    Um starfsemi sjóðsins gilda reglur um starfsmenntunarsjóð frá 16. febrúar 2021.
    1. Aðild. Aðild að sjóðnum á það starfsfólk sem á aðild að félögum starfsmanna Alþingis, Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis.
    2. Réttur til úthlutunar. Félagsfólk öðlast rétt til úthlutunar úr sjóðnum þegar
      starfsmenntunarsjóðsframlag hefur verið greitt í samtals sex mánuði.
    3. Fæðingarorlof. Sjóðfélagar njóta óskertra réttinda í fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
    4. Forgangur. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að raða umsóknum í forgangsröð ef sjóðsþurrð verður eða sjóðurinn stendur illa miðað við tekjur og væntanlegar skuldbindingar að mati sjóðsstjórnar. Sjóðsstjórn er heimilt að gefa starfstengdum verkefnum forgang umfram önnur verkefni og tómstundastyrki.
  2. Markmið sjóðsins. Markmið sjóðsins er að veita sjóðfélögum, starfsmannafélögum eða stofnunum Alþingis styrki til símenntunar og fræðslu sem geta nýst sjóðfélögum í starfi.
  3. Stjórn sjóðsins. Stjórn sjóðsins kemur að jafnaði saman fjórum sinnum á ári, í janúar, maí, september og nóvember. Sjóðsstjórn afgreiðir umsóknir, sker úr um vafaatriði, t.d. um sjóðsaðild og styrkhæfi umsókna, og tekur á öðrum málum sem upp kunna að koma.
  4. Styrkhæfi verkefna. Verkefni þarf að jafnaði að varða annaðhvort starf, fagsvið eða stuðla að starfsþróun sjóðfélaga til þess að vera styrkhæft. Verkefni sem uppfylla þessi skilyrði eru m.a. reglubundið nám, námskeið, ráðstefnur og námsgögn sem og faglega skipulagðar heimsóknir eða kynnisferðir. Með faglegri skipulagðri heimsókn eða kynnisferð er átt við að dagskrá liggi fyrir er standi yfir í a.m.k. heilan dag (6 klukkustundir). Námskeið til þess að auka almenna starfshæfni á sviði tölvutækni, tungumála og samskipta eru styrkhæf þó að námið tengist ekki beinlínis starfi umsækjenda. Heimilt er að veita styrk til skipulegra tómstunda eða námskeiða sem hvorki tengist fagsviði né starfi starfsmanns. Sjóðsstjórn metur vafatilvik.
  5. Hámarksfjárhæðir styrkja. Sjóðsstjórn ákveður hámarksfjárhæð styrkja á hverjum tíma.
    Hámarksnámsstyrkur er 560.000 kr. á tveimur árum. Þar af má nýta 140.000 kr. vegna hópferða. Sjóðurinn greiðir fyrir flugfargjöld, hótel- og gistikostnað og námskeiðs- og ráðstefnugjöld. Hámarksstyrkur fyrir tómstundanámskeið er 70.000 kr. á ári. Ekki eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum.
  6. Umsóknir, frágangur þeirra og afgreiðsla
    1. Umsóknir. Umsóknareyðublöð ásamt upplýsingum um reglur sjóðsins eru á heimasíðu sjóðsins.
    2. Skilafrestur. Umsóknum skal skila inn til sjóðsins samkvæmt tilkynningum í tölvupósti sem sendur er út til sjóðfélaga fyrir úthlutunarfund.
    3. Frágangur umsókna. Sjóðfélagar skulu vanda frágang umsókna og tilgreina til hvers þeir ætla að verja styrknum og svara þeim spurningum sem koma fram á eyðublaðinu. Senda skal fyrirliggjandi reikninga og greiðslukvittanir með umsókn. Reikningur þarf að vera í samræmi við ákvæði bókhaldslaga nr. 145/1994. Umsóknir skulu sendar með
      tölvupósti á netfang sjóðsins: starfsmenntunarsjodur@althingi.is.
    4. Afgreiðsla. Þegar sjóðsstjórn hefur tekið afstöðu til umsóknar er niðurstaða tilkynnt með tölvupósti. Í honum kemur fram hvaða gögnum þarf að framvísa til að fá styrkinn greiddan.
    5. Fundargerðir sjóðsstjórnar eru birtar á heimasíðu sjóðsins.
  7. Styrkveitingar úr sjóðnum
    Greiðslur úr sjóðnum. Sjóðfélagi ber ábyrgð á því að skila inn tilskildum gögnum til sjóðsins.
    1. Reikningar. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram gegn framvísun reikninga. Reikningur á meðal annars að bera með sér auðkenni útgefanda og viðtakanda. Reikningur þarf sannanlega að vera greiddur af sjóðfélaga sjálfum og því þarf að skila inn greiðslukvittun ef reikningur ber ekki með sér að vera fullgreiddur.
    2. Eftirágreiðsla. Greiðsla styrks er alltaf endurgreiðsla útlagðs kostnaðar sjóðfélaga.
    3. Áskilinn sveigjanleiki. Leitast er við að greiða styrki úr sjóðnum eins fljótt og aðstæður leyfa hverju sinni. Sjóðurinn áskilur sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrkja.
    4. Tími milli úthlutana. Á milli hámarksstyrkveitinga úr sjóðnum vegna starfsmenntunar þurfa að líða 24 mánuðir en vegna tómstundastyrkja 12 mánuðir. Miðað er við afgreiðslu umsókna og tímabil frá síðustu úthlutun. Ef styrkur hefur verið greiddur út á 12/24 mánaða tímabili hefur það áhrif á mögulega styrkfjárhæð.
    5. Sótt um aftur í tímann. Hægt er að sækja um styrk fyrir verkefni allt að 24 mánuðum aftur í tímann miðað við lok verkefnis vegna starfsmenntunnar, en allt að 12 mánuðum vegna tómstundastyrkja. Reikningur má ekki vera eldri en 24 mánaða fyrir starfsmenntunarstyrk og 12 mánaða fyrir tómstundastyrk. Ekki má þó koma með reikning sem dagsettur er áður en starfsmaður hóf störf.
    6. Fyrning umsókna. Réttur til greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðsins fyrnist ef umsækjandi hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum innan sex mánaða frá dagsetningu tilkynningar um styrkveitingu.
    7. Tvígreiðsla eða ofgreiðsla styrks. Ef sjóðfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkfjárhæð ber honum að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða fjárhæðina þegar í stað.
    8. Upplýsingar til skattyfirvalda. Í byrjun hvers árs sendir sjóðurinn upplýsingar til skattyfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkfjárhæðum síðastliðins árs.
  8. Hætt við umsókn. Ef verkefni fellur niður eða umsókn er dregin til baka áður en styrkur er greiddur, fellur styrkloforð niður og hefur umsóknin þá engin áhrif á réttindi umsækjanda hjá sjóðnum. Sjóðfélaga ber að láta sjóðstjórn vita ef ekki verður af verkefni.
  9. Starfslok og hlé á sjóðsaðild
    Starfslok. Aðild að sjóðnum lýkur sex mánuðum eftir starfslok hjá viðkomandi stofnun.
    Launalaust námsleyfi. Sjóðfélagi í launalausu námsleyfi á rétt til úthlutunar ef minna en átta mánuðir eru frá upphafi leyfis og starfssamband er í gildi.
  10. Endurskoðunarákvæði. Ef sjóðfélagi er ósáttur við afgreiðslu sjóðsins á styrkumsókn sinni og fylgigögnum á hann ávallt rétt á að skjóta máli sínu til stjórnar sjóðsins. Verður afgreiðslan þá tekin upp á næsta fundi stjórnar.
  11. Önnur ákvæði.
    Gildistaka. Reglur þessar voru samþykktar í stjórn sjóðsins 18. ágúst 2008 og tóku gildi við birtingu.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 10. desember 2009 breytingar á 5. gr. Breytingin tók gildi 12. janúar 2010.
    Þá samþykkti stjórn sjóðsins 20. desember 2010 breytingar á greinum 7d og 7e. Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2011.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 13. febrúar 2012 breytingar á hámarksfjárhæð styrkja í 5. gr. Breytingarnar öðluðust þá þegar gildi.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 9. janúar 2014 breytingar á 4. og 5. gr. Breytingarnar varða styrkhæfi verkefna og hámarksfjárhæð styrkja vegna verkefna erlendis og öðluðust þær þá þegar gildi.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 11. júní 2015 breytingar á hámarksfjárhæð styrkja í 5. gr. Breytingarnar öðluðust þá þegar gildi.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 11. september 2018 breytingar á greinum 1b, 3, 4, 5, 6b, 6c, 7d, 7f og 9a og tóku þær þá gildi. Að auki var fellt brott ákvæði um að sjóðfélagi í hlutastarfi ætti rétt á styrk í samræmi við starfshlutfallið. Stjórn sjóðsins samþykkti 12. febrúar 2020 breytingar á grein 1b sem öðluðust þá þegar gildi.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 12. febrúar 2021 breytingar á grein 1 sem öðlaðist þá þegar gildi, staðfestar af skrifstofustjóra Alþingis.
    Uppfærðar reglur voru samþykktar af stjórn sjóðsins 3. apríl 2024, en þá voru gerðar breytingar á 3. grein um tíðni funda og 5. grein um hámarksfjárhæðir styrkja auk þess að nokkrar greinar voru gerðar skýrari með minniháttar orðalagsbreytingum. Reglurnar voru staðfestar af skrifstofustjóra Alþingis og öðluðust þá þegar gildi.
    Stjórn sjóðsins samþykkti 2. desember 2025 breytingu á 5. gr., um hámarksfjárhæð styrks vegna hópferða, sem tók þegar gildi.
    Breytingar á reglum. Samþykki stjórn sjóðsins breytingar á reglum þessum verða þær kynntar á viðeigandi vettvangi og reglurnar uppfærðar á heimasíðu sjóðsins.