Reglur Orlofssjóðs FSA-RE
1. gr. Nafn sjóðsins og heimili
Sjóðurinn heitir Orlofssjóður FSA-RE og starfar á vegum Félags starfsmanna Alþingis, Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar og Félags starfsmanna umboðsmanns Alþingis. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Sjóðfélagar
Sjóðfélagar í Orlofssjóði FSA-RE eru félagsmenn Félags starfsmanna Alþingis, Starfsmanna-félags Ríkisendurskoðunar og Félags starfsmanna umboðsmanns Alþingis eins og þeir eru skilgreindir í lögum og samþykktum félaganna.
3. gr. Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er að bjóða félagsmönnum sjóðsins fjölbreytta möguleika í orlofsmálum allan ársins hring á sanngjörnu verði.
Til þess að ná þessu markmiði er sjóðnum heimilt að:
- eiga eða leigja orlofshús/orlofsaðstöðu víðsvegar um landið og einnig erlendis ef það er hagstætt,
- bjóða til sölu orlofstengdar vörur og þjónustu.
4. gr. Tekjur sjóðsins
Tekjur sjóðsins eru:
- framlag vinnuveitenda sem skal nema ákveðnum hundraðshluta af föstum mánaðarlaunum starfsfólks og skal ákveðið í kjarasamningum hverju sinni,
- leigutekjur,
- sölutekjur,
- vaxtatekjur,
- aðrar tekjur er til falla.
5. gr. Stjórn og rekstur
Stjórn Orlofssjóðs FSA-RE skal skipuð þremur fulltrúum starfsmanna Alþingis ásamt einum til vara og tveimur fulltrúum starfsmanna Ríkisendurskoðunar, sbr. lög þeirra félaga. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á afgreiðslum, útleigu og kaupum orlofshúsa ásamt öðrum fjárreiðum sjóðsins. Fulltrúar í stjórn Orlofssjóðs skulu kjörnir á aðalfundum Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar. Á fyrsta fundi kýs stjórn sér formann og varaformann fyrir starfsárið. Stjórn sjóðsins heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og skal það sem fram fer á fundum skráð í sérstaka gerðarbók. Stjórn sjóðsins skal í störfum sínum hverju sinni taka mið af gildandi úthlutunarreglum sjóðsins og leita sífellt nýrra leiða í orlofsþjónustu við félagsmenn sína til að koma sem best til móts við mismunandi þarfir þeirra.
Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um daglegan rekstur og eignaumsjón sjóðsins sem og allar meiriháttar ákvarðanir um fjármál og eignir sjóðsins, s.s. kaup, sölu og veðsetningu.
Framkvæmdastjórn setur úthlutunarreglur þar sem m.a. skal koma fram leigugjald og punktaafdráttur og skulu þær uppfærðar eftir þörfum.
Stjórn sjóðsins er heimilt að kalla eftir aðstoð við færslu bókhalds sjóðsins.
6. gr. Ávöxtun sjóðsins
Fjármuni sjóðsins skal ávaxta með sem hagstæðustum og öruggustum hætti. Ekki er heimilt að setja fjármuni sjóðsins í áhættufjárfestingar s.s. með kaupum á hlutabréfum.
7. gr. Reikningar sjóðsins og endurskoðun
Ársreikning Orlofssjóðs FSA-RE skal leggja fram áritaðan af félagslegum skoðunarmönnum félagsins á aðalfundum Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar. Þá skal jafnframt leggja fram skýrslu stjórnar Orlofssjóðs um starfsemi ársins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.
8. gr. Sjóðurinn lagður niður
Hætti sjóðurinn störfum eða ákvörðun er tekin um að honum verði slitið færast eignir hans til þeirra félaga sem hann starfar á vegum, sbr. 1. gr., í réttu hlutfalli við fjölda félagsmanna við slit.
9. gr. Gildistaka og breytingar
Reglur Orlofssjóðs FSA-RE taka gildi frá og með 12. janúar 2024 að fenginni staðfestingu stjórna þeirra félaga sem standa að rekstri sjóðsins sbr. 1. gr. Reglum þessum má aðeins breyta með samþykki framangreindra stjórna.
