skv. 12. gr. laga Félags starfsmanna Alþingis.
1. gr.
Aðild.
Aðild að fjölskyldusjóði eiga allir félagsmenn í Félagi starfsmanna Alþingis sem greitt er kjarasamningsbundið framlag fyrir í sjóðinn.
Aðild að styrktarsjóði eiga allir félagsmenn í Félagi starfsmanna Alþingis, en réttur til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna félaga í sex mánuði fyrir umsóknardag en tekjutap eða útgjöld sem koma til fyrstu þrjá mánuðina í starfi veita ekki rétt til styrkveitingar.
2. gr.
Stjórn.
Stjórn Fjölskyldu og styrktarsjóðs er skipuð þremur mönnum og tveimur til vara, kosnum á aðalfundi FSA til tveggja ára. Einn aðalmanna og annar varamanna skal vera löglærður. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Stjórnarfundi skal halda eftir þörfum, en þó eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári. Formaður boðar til funda. Stjórnarfundur er því aðeins ályktunarbær að allir stjórnarmenn eða staðgenglar þeirra sitji fund. Ef stjórnarmaður forfallast eða telst vanhæfur til að taka þátt í meðferð máls skal varamaður taka sæti hans. Ef varamenn teljast einnig vanhæfir skal stjórn Félags starfsmanna Alþingis tilnefna mann til setu í stjórninni í hvert skipti.
Afl atkvæða ræður ákvörðun á fundi. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar. Stjórnarmenn eru bundnir þagnarskyldu um upplýsingar um hagi umsækjenda sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.
Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. er stjórninni heimilt að veita stjórn Félags starfsmanna Alþingis upplýsingar um einstaka umsækjendur ef eftir því er leitað. Ákvæði 5. mgr. um þagnarskyldu skulu þá jafnframt gilda um stjórnarmenn félagsins.
Stjórnin skal fylgjast með því að greiðslur úr fjölskyldu- og styrktarsjóði séu í samræmi við fjárhagsstöðu og skuldbindingar sjóðsins á hverjum tíma og að fjármunir sjóðsins séu ávaxtaðir á öruggan hátt.
Stjórnin skal skila skýrslu um málefni sjóðsins á aðalfundi Félags starfsmanna Alþingis.
3. gr.
Hlutverk.
Fjölskyldu- og styrktarsjóður annast framkvæmd 14. kafla kjarasamnings Félags starfsmanna Alþingis við forseta Alþingis með því að
- taka við iðgjöldum launagreiðanda og ávaxta þau,
- taka við umsóknum, ákvarða og annast greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi,
- taka ákvarðanir um frekari ráðstöfun fjármuna sjóðsins samkvæmt nánari ákvörðun sjóðsstjórnar.
Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við þriðja aðila um framkvæmd tiltekinna þátta starfseminnar að fengnu samþykki stjórnar Félags starfsmanna Alþingis.
Framlög launagreiðanda til fjölskyldu- og styrktarsjóðs vegna starfsmanna sinna eru ekki eign einstakra sjóðfélaga og óendurkræf við starfslok.
4. gr.
Fjölskyldusjóður.
Stjórn sjóðsins tekur við umsóknum um greiðslur til félagsmanna í fæðingarorlofi, tekur ákvörðun um réttindi því tengd og annast greiðslur.
5. gr.
Styrktarsjóður.
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrk með óafturkræfu fjárframlagi í eftirfarandi tilvikum:
- Ef sjóðfélagi verður fyrir tekjutapi vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu af völdum veikinda sinna eða nákominna vandamanna eða annarra persónulegra aðstæðna.
- Ef sjóðfélagi verður fyrir kostnaði vegna andláts nákominna vandamanna.
- Ef sjóðfélagi andast (útfararstyrkur).
- Ef sjóðfélagi verður fyrir öðrum óvæntum áföllum sem hafa í för með sér tekjutap eða kostnað.
Stjórn sjóðsins setur almennar úthlutunarreglur og tekur ákvarðanir um úthlutun. Úthlutunarreglur skulu bornar undir stjórn Félags starfsmanna Alþingis til samþykktar og kynntar á almennum félagsfundi.
6. gr.
Breytingar, gildistaka o.fl.
Starfsreglur þessar taka gildi 1. janúar 2003. Breytingar á starfsreglum eru háðar samþykki stjórnar Félags starfsmanna Alþingis.
