Reglur um umsókn og úthlutun styrkja úr styrktarsjóði félags starfsmanna Alþingis

1. gr.
Sjóðfélagar.

Aðild að fjölskyldu- og styrktarsjóði eiga allir félagsmenn í Félagi starfsmanna Alþingis (FSA) sem greitt er kjarasamningsbundið framlag fyrir í sjóðinn. Stjórn sjóðsins er heimilt að veita öðrum aðild að sjóðnum með samþykki stjórnar FSA, að því tilskyldu að greitt sé framlag skv. kjarasamningi FSA fyrir þá í sjóðinn.

Réttur til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna félaga í sex mánuði fyrir umsóknardag en tekjutap eða útgjöld sem koma til fyrstu þrjá mánuðina í starfi veita ekki rétt til styrkveitingar. Styrkfjárhæðir miðast við fullt starf og lækka í hlutfalli við starfshlutfall, sbr. þó sérákvæði 3. gr.

Sjóðfélagar halda réttindum í allt að sex mánuði eftir starfslok eða við tímabundinn flutning ef þeir hafa ekki öðlast réttindi í öðru félagi. Sjóðfélagar halda réttindum í sex mánuði ef þeir láta af störfum vegna aldurs og/eða hefja töku lífeyris, sbr. þó sérákvæði 4. gr.

2. gr.
Umsóknir, ákvörðun og málskot.

Umsóknir skulu vera skriflegar og skilað rafrænt til sjóðstjórnar á umsóknareyðublöðum sem skulu aðgengileg öllum félagsmönnum Félags starfsmanna Alþingis, starfsmönnum umboðsmanns Alþingis og öðrum sem aðild eiga að sjóðnum á vef FSA. Nauðsynleg fylgigögn sem styðja styrkumsókn skulu fylgja umsókn og er stjórn sjóðsins heimilt að óska eftir nánari upplýsingum frá umsækjanda.

Umsókn um styrk skal berast sjóðnum innan tólf mánaða frá því að tekjutap varð eða til kostnaðar var stofnað.

Sjóðstjórn tekur ákvörðun um styrkveitingar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Við mat á umsókn skal m.a. tekið mið af tekjutapi eða kostnaði sem umsækjandi hefur orðið fyrir, fjárhagsaðstæðum hans, möguleikum til bóta eða styrkja frá öðrum aðilum og högum hans að öðru leyti. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar.

Ef umsækjandi veitir sjóðstjórn vísvitandi rangar upplýsingar er stjórninni heimilt að útiloka sjóðfélaga frá styrkveitingum úr sjóðnum. Ákvörðun þessari má skjóta til stjórnar Félags starfsmanna Alþingis.

3. gr.
Fæðingarstyrkur.

Sjóðfélagi sem hefur verið starfandi síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns í fullu starfi og hefur gildan ráðningarsamning við upphaf fæðingarorlofs á rétt á styrk. Styrkurinn er 200.000- kr. fyrir hvert barn og er veittur foreldri gegn framvísun fæðingarvottorðs og staðfestingu atvinnurekanda. Styrkurinn lækkar í hlutfalli við skert starfshlutfall. Umsækjandi í starfshlutfalli undir 25% á ekki rétt á fæðingarstyrk. Sömu reglur gilda um ættleiðingu barna yngri en fimm ára og töku barna yngri en fimm ára í varanlegt fóstur.

Fullur styrkur er greiddur vegna fósturláts eftir 18 vikur og andvanafæðingar.

Sækja þarf um fæðingarstyrk innan 18 mánaða frá fæðingu barns.

4. gr.
Styrkur vegna veikinda eða slyss.

Heimilt er að veita sjóðfélaga sjúkradagpeninga í allt að 9 mánuði vegna veikinda hans eða slyss sem hefur í för með sér tekjutap eða verulegan kostnað. Fjárhæð skal vera 80% af meðalheildarlaunum síðustu 12 mánaða, sé starfstími skemmri skal miða við meðaltal launa þann tíma, sbr. 1. gr. Allar skattskyldar greiðslur frá öðrum aðilum, s.s. Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóðum, koma að fullu til frádráttar sjúkradagpeningum frá sjóðnum. Dagpeningar greiðast ekki lengur en ráðningu starfsmanns er ætlað að standa.

Heimilt er að veita sjóðfélaga styrk í allt að sex mánuði vegna alvarlegra langtímaveikinda barns, maka eða sambúðarmaka sem hafa í för með sér tekjutap eða verulegan kostnað.

Sjóðfélagi getur öðlast rétt til styrkveitingar að nýju samkvæmt þessari grein eftir sex mánaða iðgjaldagreiðslu í sjóðinn eftir lok fyrra styrktartímabils.

5. gr.
Styrkur vegna fráfalls nákominna.

Heimilt er að veita sjóðfélaga hálfan útfararstyrk vegna kostnaðar í tengslum við fráfall maka, sambúðarmaka eða barns.

6. gr.
Útfararstyrkur.

Ef sjóðfélagi andast er heimilt að veita þeim sem annast útför hans útfararstyrk, að fjárhæð 250.000 kr, enda hafi hinn látni verið sjóðfélagi í a.m.k. sex mánuði fyrir andlát.

Heimilt er að greiða hálfan útfararstyrk vegna sjóðfélaga sem andast innan tveggja ára frá því að hann lét af störfum vegna aldurs og/eða fór á lífeyri (elli- eða örorku-).

7. gr.
Styrkur vegna heilbrigðiskostnaðar o.fl.

Heimilt er að veita sjóðfélaga styrk vegna heilbrigðiskostnaðar, svo sem kostnaðar vegna læknisþjónustu, lyfja, sjúkraþjálfunar, sálfræðimeðferðar, félagsráðgjafar, dvalar á dvalar- og heilsustofnun að læknisráði o.fl.

Styrkveiting miðast við 40% af útlögðum kostnaði á hverju almanaksári samkvæmt framlögðum reikningum. Lægri fjárhæðir en 3.000 kr. verða ekki greiddar út.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. um kostnaðarhlutfall og lágmarksfjárhæð greiddra styrkja gilda eftirfarandi sérreglur:

  1. Krabbameinsleit. Reglubundin krabbameinsleit (kembileit) og hugsanleg framhaldsrannsókn er styrkt að fullu, þó að hámarki 30.000 kr. Sama gildir um krabbameinsleit í ristli og blöðruhálskirtli.
  2. Áhættumat vegna hjartarannsóknar. Áhættumat vegna hjartarannsóknar er styrkt að fullu og hugsanleg framhaldsrannsókn er stykt að fullu, þó að hámarki 30.000 kr.
  3. Tannlæknakostnaður. Tannlæknakostnaður er styrktur um 40% af kostnaði umfram 50.000 kr.
  4. Laseraugnaðgerðir. Laseraugnaðgerðir eru styrktar um 60.000 kr. fyrir hvort auga.
  5. Gleraugu. Kaup á gleraugum eru styrkt um 40% á tveggja ára fresti.
  6. Heyrnartæki. Kaup á heyrnartækjum eru styrkt um 50%.
  7. Linsur. Kaup á linsum eru styrkt um 40%.

Heimilt er að veita sjóðfélaga styrk vegna kostnaðar í tengslum við ættleiðingu barns, töku barns í varanlegt fóstur, glasa- og tæknifrjóvgun og hliðstæð tilvik.

Hámarksstyrkur sjóðfélaga samkvæmt þessari grein er 350.000 kr. á hverju almanaksári. Aðrir styrkir sem umsækjandi hefur fengið eða getur fengið á móti útlögðum kostnaði, svo sem frá vinnuveitanda, Tryggingastofnun ríkisins eða öðrum sjóðum koma til frádráttar við útreikning styrkja.

Sjóðstjórn er heimilt að víkja frá ákvæðum um hámarksstyrkveitingu og kostnaðarhlutfall ef sérstaklega stendur á, sbr. og 3. mgr. 1. gr. Þá er sjóðsstjórn heimilt í sérstökum tilfellum að endurskoða heildarstyrkveitingu sjóðfélaga í lok ársins. Við það mat skal gætt ákvæða 3. mgr. 1. gr. og jafnframt tekið tillit til fjárhagsstöðu styrktarsjóðsins og framtíðarskuldbindinga hans.

8. gr.
Skilgreiningar.

Með orðinu barn í reglum þessum er átt við kynbarn, kjörbarn, fósturbarn og stjúpbarn sjóðfélaga auk barnabarns sem sjóðfélagi hefur á framfæri sínu.

Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en 30 almanaksdaga.

9. gr.
Ýmis atriði.

Reglur þessar eru samþykktar af stjórn Félags starfsmanna Alþingis og gilda frá 1. janúar 2023, reglurnar eiga við um kostnað sem fallið hefur til frá 1. janúar 2023. Um kostnað sem til féll fyrir 1. janúar 2023 fer eftir eldri úthlutunarreglum.